144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kallar á miklu umfangsmeiri umræðu, þ.e. staða fjölmiðlamarkaðarins á Íslandi, aðförin að almannaútvarpinu sem við sjáum með lækkun útvarpsgjaldsins og hækkun virðisaukaskatts á prentmiðla. Þegar þetta allt safnast saman þá kemur fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi verr út úr þessum tillögum stjórnarmeirihlutans en áður var. Við ættum að horfa til framtíðar, tryggja almannaútvarpið, tryggja betri sátt um það, skoða hvernig það getur í skrefum farið út af auglýsingamarkaði þannig að meira sé til staðar fyrir aðra miðla. Við ættum að skoða hvernig við getum styrkt sérstaklega rannsóknarblaðamennsku á Íslandi, ekki veitir af. Við eigum sérstaka rannsóknarstofnun um fjölmiðlun í háskólanum, vanbúna til þess að takast á við það flókna mál að reka fjölmiðil í jafn miklu fámennissamfélagi og Ísland er. Það væri alveg sérstakt úrlausnarefni sem við hljótum að vera meðvituð um því að fjölmiðlar eru ekki eins og hver önnur félög eða stofnanir, ekki eins og hver önnur kjötbúð eða hvað það er. Við viljum hafa þá (Forseti hringir.) og þeir eiga að vera ein stoð í lýðræðissamfélagi okkar, fjórða valdið. Það ætti að vera kappsmál okkar allra að þeir geti sinnt því hlutverki sem allra best. (BirgJ: Heyr, heyr!) Þess sér því miður ekki stað í þessum tillögum.