144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í skýrslunni eins og þingmaðurinn nefnir að megnið af þessu eða 2/3 er kjöt og mjólkurvörur, hitt eru aðrar landbúnaðarvörur. Þetta eru því aðallega þessar vörur, sú búvöruframleiðsla sem við þekkjum á Íslandi. Áhrifin sem menn reikna þarna, ég hef náttúrlega engar forsendur fyrir því að meta útreikningana, en þetta eru niðurstöður þeirra. Á grundvelli þessara niðurstaða unnu þingmenn Samfylkingarinnar, öll sem eitt, allir í þeim flokki, þingsályktunartillögu sem skyldi unnið eftir.

Við vitum alla vega að tollvernd sem þessi er óskilvirk, hún er óskilvirk leið, sama hvort það að lækka skatta á matvæli skili sér strax í verði til neytanda á endanum. Við vitum að það skilar sér ekki alltaf strax inn í matvælaverð. Og í verði á margri vöru skilar það sér alls ekki strax, en það gerir það alltaf þegar fram í sækir, að því gefnu að það sé sæmilega frjáls markaður. Þá skilar það sér á endanum. Þetta er klárlega skilvirk leið til þess að lækka matvælaverð. Eins og þingmaðurinn nefndi væri hægt að fara aðra leið eins og með garðyrkjubændur í að veita stuðning ef menn vilja það. Að sjálfsögðu er pólitískur vilji fyrir því að styðja við búvöruframleiðslu og landbúnað í landinu.