144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hækkunin á matarskattinum er náttúrlega 4 prósentustig og því miður eru einhverjar lækkanir á sykraðri matvöru þar á móti. Það er alveg óvíst að þær lækkanir muni skila sér en hækkanirnar munu klárlega skila sér.

Hitt er svo mikið efamál, hv. þingmaður, að afnám vörugjalda á vörur eins og raftæki og byggingarvörur muni yfir höfuð skila sér. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins, sem fylgdist með því þegar vörugjöld af matvöru voru felld niður fyrir einum sjö árum, upplýsti það fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að ekkert af þeirri gjaldalækkun hefði skilað sér til neytenda. Það hefðu verið fyrirtækin sjálf sem hefðu tekið þá gjaldalækkun alla til sín í aukna framlegð. Það er því hæpið að reikna út í excel-skjölum almenna verðlækkun eða bættan kaupmátt eftir þessar aðgerðir vegna þess að hækkanirnar skila sér að fullu strax, en lækkanirnar skila sér bæði seint og illa.

Um tollverndina er ég sammála þingmanni hvað það varðar að það er mikilvægt, ef ráðist er í niðurfellingu á tollum, sem vernda innlenda búfjárframleiðslu, að það sé þá gert eins og gert var í grænmetinu með því að beinn stuðningur verði til bændanna og þetta sé gert yfir lengri tíma. Alveg eins og við viljum tryggja hag heimilanna í landinu þá er okkur líka kappsmál að tryggja stöðu þeirra sem vinna í landbúnaðinum, hins hefðbundna íslenska fjölskyldubús. Það hefur hins vegar verið óhóflega mikil tollvernd, að mínu viti, á starfsemi sem er ekki hluti af þeim hefðbundna íslenska landbúnaði. Þá horfi ég einkanlega á kjúklingaframleiðsluna sem ég held að sé alger óþarfi að njóti þeirrar óheyrilegu tollverndar sem hún gerir nú. Það væri mikil bót í lífskjörum fyrir fólk ef fallið væri frá henni.