144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað er það ekki lengd frumvarpanna sem skiptir máli. Það er undirbúningurinn og hugsunin sem býr að baki sem skiptir máli. Það var það sem stóð lengi vel í framsóknarmönnum en svo kyngdu þeir bara pillunni, stóru og vondu, fyrir eitt prósentustig. Og treysta svo á að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök tryggi að skattbreytingarnar hafi þau áhrif inn í verðlag til lækkunar sem ætlast er til, og að tækifærið verði ekki nýtt til að hækka verð á matvælum umfram hækkun virðisaukaskattsins.

Það var einu sinni til opinber stofnun sem hét Þjóðhagsstofnun. Hún var lögð niður af því að forstjórinn móðgaði forsætisráðherra þáverandi. Sér hv. þingmaður fyrir sér hvernig stjórnvöld eiga að koma að þessu verðlagseftirliti? Hvaða stofnun ríkisins er til þess fallin? Ætlar ríkisstjórnin að senda frá sér erindi? Er Neytendastofa í stakk búin til að taka að sér þetta hlutverk? Eða er það þriðji geirinn sem á að fara í að halda aftur af markaðsöflunum? Mér finnst þetta áhugaverð spurning og þessi niðurstaða meiri hlutans vægast sagt vandræðaleg.