144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega alveg magnað hversu mikið er af mótsögnum í stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi til dæmis lýðheilsu og það sem er borið á borð hér í þessum breytingum á virðisaukaskatti. Ég hef miklar áhyggjur af mataræði. Það er þannig að þegar það er ódýrara að kaupa sér rusl, þetta hefur t.d. komið fram í myndinni Super size me og fleiri myndum um óhollustu, þegar það er hreinlega ódýrara að kaupa óhollan mat — auðvitað kaupir svangt fólk mat sem fyllir maga þess. Það er bara þannig. Við stefnum því inn á mjög hættulega braut hér.

Ég hef líka áhyggjur af því að grafa undan til að mynda menningu. Menning er mjög margþætt. Menning getur falist í því að búa til heimildarmyndir á Íslandi um íslenskan veruleika sem gerir fólk upplýstara um óhollustu og hollustu. Við erum að grafa undan ákveðnum undirstöðum samfélagsins. Það verður reikningur sem við munum senda börnunum okkar, enn einn reikningurinn sem við sendum inn í framtíðina. Gleymum því ekki að það eru allt of margir, t.d. ég hef farið og fengið matarpoka frá Mæðrastyrksnefnd fyrir jól og megnið af matnum var dísætar mjólkurvörur. Það er of dýrt í dag fyrir fólk sem er fátækt að kaupa sér hollan mat og ætlum við að gera það enn erfiðara. Það er verið að ýta fólki út í óhollustu og þeir sem eiga ekki fyrir mat og þurfa að fá matarúthlutanir fá oft mjög óhollan mat í ofanálag. Þetta er vítahringur sem verið er að búa til og við verðum að rjúfa hann.