144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég tek heils hugar undir það, það er ekki mótvægisaðgerð. Núna er ríkisstjórnin að framkvæma niðurfellingu á hluta skulda þeirra sem eiga eigið húsnæði og skulda í því. Bankarnir munu fyllast af peningum og vilja koma þeim út og lána væntanlega fjölda fólks fyrir bifreiðum og slíku enda endurnýjunarþörfin mikil eftir hrun. Það er hægt að hafa fullan skilning á því að fólk þurfi að endurnýja bifreiðar sínar, en tímasetningin og allar þessar aðgerðir saman komnar ýta undir þenslu, ýta undir innflutning sem er vandamál af því að við erum með landið í fjármagnshöftum.

Það er kannski áhugavert að nefna það einmitt hér af því ég og hv. þingmaður, ég tel að ég geti fullyrt fyrir hönd okkar beggja að við deilum þeirri sýn að æskilegt sé að leita hófanna með nýjan gjaldmiðil, það sé leiðin út úr fjármagnshöftunum og það sé leiðin til stöðugra efnahagslífs og betri lífskjara hér á landi til framtíðar. Það er vandrataður vegur, en hann er fær ef skýr sýn og vilji er fyrir hendi. Allar aðgerðir sem þessar flækja það mjög og hafa tímabundin jákvæð áhrif, en timburmennirnir verða erfiðir og lengja bara veru okkar í fjármagnshöftum.