144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er almennt viðurkennt, eins og þingmaðurinn fór yfir, í vísindatímaritum og rannsóknir hafa leitt það í ljós að sykur er ekki heppileg neysluvara. Sykur er eflaust ágætur í hófi, ég vona það að minnsta kosti, en hv. þingmaður fór ágætlega yfir það magn sem við neytum hér á landi og að ástæða sé til að leita leiða til að draga úr þeirri neyslu. Neyslustýring, sem fólk er auðvitað misviðkvæmt fyrir, sem ríki hafa stundað með ýmsum hætti getur verið mjög mikilvægt tæki sem stjórnvöld hafa. Þó að oft sé um kennt forræðishyggju og að fólki sé ekki treyst til þess að taka ákvarðanir sínar sjálft, þá höfum við hreinlega sannanir fyrir því að það er áhrifaríkasta leiðin.

En af hverju viljum við blanda okkur í hvað fólk borðar mikinn sykur? Eitt er það að það sé ekki gott fyrir fólk. Það er eitthvað sem fólk þarf svolítið að taka ábyrgð á sjálft.

Hinn endinn er sá að gríðarlegt álag er á heilbrigðiskerfið. Þeir aðilar sem fjalla um lýðheilsumál hafa bent á að von sé á að ekki verði bara aukið álag vegna hlutfallslegrar öldrunar þjóðarinnar heldur muni lífsstílssjúkdómar, svo sem eins og offita, valda gríðarlega auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Það er stórt efnahagsmál að heilbrigðiskerfið okkar (Forseti hringir.) verði ekki undirlagt af lýðheilsusjúkdómum.