144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann hvort velferðarnefnd hafi verið falið að óska eftir því að velferðarnefnd gerði umsögn um málið, því að ég tel að þetta mál sem við ræðum auðvitað oft hér — og það er nú eitt af því sem ég vil benda á í tengslum við umræðu um þessi tekjuöflunarfrumvörp og fjárlagafrumvarpið að við erum iðulega að ræða hluti sem þar birtast í öðrum umræðum. Þegar við stöndum hér og ræðum um lýðheilsu og forvarnir þá er ekki annað að heyra en að allir séu mjög sammála um að nú þurfi að gera eitthvað til að koma í veg fyrir alla þessa lífsstílssjúkdóma og að við þurfum að grípa til aðgerða.

Síðan í allt öðru máli er allt í einu gengið fram fyrir skjöldu og sykurskattur bara afnuminn þegar við horfum á þær staðreyndir að lífsstílstengdir sjúkdómar munu valda sívaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu ef ekki verður gripið til ráða. Neyslustýring er samkvæmt þeim fræðum sem ég vitnaði til áðan viðurkennd aðferð til að koma í veg fyrir aukinn kostnað heilbrigðiskerfisins fyrir utan þau ágætu rök sem komu fram í umsögn SÍBS, sem ég vitnaði til í ræðu minni og ætla að endurtaka því að mér finnst þetta svo skemmtilegt. Adam Smith segir í riti sínu Auðlegð þjóðanna að sumar neysluvörur séu tilvaldar til skattlagningar, t.d. romm, tóbak og sykur, enda sé auðvelt að sneiða hjá þessu öllu og lifa farsælu lífi án þess nokkurn tímann að neyta þessara neysluvara.

Ég er ekki alltaf sammála Adam Smith en ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki líklegt til að ná eyrum a.m.k. sjálfstæðismanna. Ég hefði haldið að framsóknarmenn hefðu áhuga á því að vinna einmitt að framgangi lýðheilsumála. Það hefur verið stefna þeirra lengi, þannig að ég sé ekki annað en þetta þurfi að skoða betur. Ég velti fyrir mér hvort velferðarnefnd hafi fengið málið til umsagnar og hvort þurfi ekki að taka þessi mál líka fyrir áfram í umræðunni. Eða ætlum við bara að hverfa algjörlega frá þessu? Ætlum við að leyfa þjóðinni, næstu kynslóð, að borða 200 kíló af sykri á hverju ári án þess að aðhafast neitt?