144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, vörugjöld, breytingar á tekjuskatti og ýmislegt annað hér. Þetta er allt mjög einkennilegt. Menn biðu fullir eftirvæntingar eftir því hvernig Framsóknarflokknum tækist að ná fram breytingum á virðisaukaskattinum miðað við óánægju þar á bæ með hækkun á matarskatti. Það hefur komið fram í umræðunni að matarskattur var lækkaður fyrir kosningar 2007 þegar Framsóknarflokkurinn var ásamt sjálfstæðismönnum við völd. Hæstv. forsætisráðherra hafði uppi stór orð á síðasta kjörtímabili um að aldrei kæmi til greina af hans hálfu að hækka matarskattinn. Þess vegna er ekkert skrýtið þó að maður furði sig á þessum viðsnúningi hjá Framsóknarflokknum, að hann láti sér nægja eins prósentustigs lækkun frá því sem áætlað var, þ.e. að hækka matarskattinn uppi 12%, og geri sér það að góðu með örlitlum útíhræringi ýmissa aðgerða sem eiga að vera mótvægisaðgerðir. (PHB: … þið …) — Já, við gerðum ansi mikið, hv. þm. Pétur Blöndal. Þið komist seint með tærnar þar sem við höfum hælana. (Gripið fram í.) Það er ekki langt í kosningar svo að þjóðin getur farið að ylja sér við það. Nú sér hún muninn á fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn þar sem vandræðagangurinn er með ólíkindum. Þó að menn hafi mikinn meiri hluta eru þeir stanslaust í vandræðum. Það mætti æra óstöðugan að skemmta sér á kostnað ríkisstjórnarinnar með því að velta því öllu saman upp. Þetta er eitt af þeim málum sem kemur ekki vel út fyrir annan stjórnarflokkinn sérstaklega.

Ég ætla að vitna í nefndarálit meiri hlutans þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum ásamt þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til munu ráðstöfunartekjur neytenda batna um 6,2 milljarða kr. þrátt fyrir hækkun neðra þrepsins. Lækkun efra þreps virðisaukans skilar neytendum 7,5 milljörðum kr., niðurfelling almennra vörugjalda skilar 6,5 milljörðum kr. og hækkun barnabóta skilar þeim 1 milljarði kr.“

Þetta lítur þokkalega út á prenti, en er þetta raunveruleikinn? Mér finnst menn setja upp falskar svipmyndir af því hvernig þetta kemur út fyrir almenning. Ég vil bara draga upp mynd að tveim heimilum eða fjölskyldum. Önnur fjölskyldan býr á svokölluðu köldu svæði, þar sem orkukostnaður er hár, og fellur undir þann flokk að tilheyra láglaunafjölskyldu og hefur nokkur börn á framfæri og býr ekki við það að hafa lágvöruverslun í bakgarðinum. Hin fjölskyldan býr á svæði þar sem er ódýr hitaveita. Við skulum gefa okkur að hún eigi jafn mörg börn og fyrrnefnd fjölskylda, en að hún teljist til hátekjufólks. Við skulum sjá hvernig þessar tvær sviðsmyndir koma út gagnvart þessum aðgerðum.

Sú fjölskylda sem telst til láglaunafjölskyldu og býr á köldu svæði greiðir hærri virðisaukaskatt af heitu vatni og rafmagni og virðisaukaskattur á matvæli hækkar sem vegur enn þyngra hjá henni vegna þess að virðisaukaskatturinn leggst ofan á flutningsgjald og gerir matvöruna enn dýrari. Hvaða möguleika hefur þessi fjölskylda til að nýta sér lækkun í efra þrepinu? Hún hefur ekki mikla möguleika á því. Útgjöld heimilisins hækka og hún ræður ekki við að endurnýja heimilistæki eins og ísskáp eða kaupa einhvern dýran varning í efra þrepinu. Hin fjölskyldan, sem er með háar tekjur og býr á svæði þar sem er lágur orkukostnaður, getur vissulega mætt hærri matarinnkaupum hjá sér því að þau vega miklu minna en hjá láglaunafjölskyldunni, en 5–15% af ráðstöfunartekjum hátekjufjölskyldu fara í matarkaup en 21% af ráðstöfunartekjum láglaunafjölskyldu. Hátekjufjölskyldan getur nýtt sér það og keypt dýran varning og endurnýjað ýmislegt á heimili sínu sem vegur upp á móti hækkun á matvöruverði. Það verður aldrei sagt að þetta komi jafn vel út fyrir þessar tvær fjölskyldur, það segir sig sjálft.

Við getum ekki alltaf tekið eitthvert meðaltal því að það er svo falskt og sýnir ekki raunveruleikann eins og hann er gagnvart fjölskyldum í landinu. Þannig er það bara og menn verða að horfast í augu við það að þessar ráðstafanir koma mjög illa við láglaunafjölskyldur.

Mér finnst frumvarpið vera landsbyggðarfjandsamlegt. Ég verð bara að segja alveg eins og er. Ég er sú manneskja hér sem er alltaf með landsbyggðargleraugun á því að það veitir ekkert af að taka þann vinkil líka í umræðunni.

Ég veit að það stendur til að loka einu matvöruversluninni á Reykhólum. Ég veit að matvöruverslanir vítt og breitt um landið, þar sem verið er að reyna að halda uppi verslunum með nauðsynjavörur, eiga á brattann að sækja. Þegar þessar hækkanir á matvæli koma því til viðbótar og ofan á leggst flutningskostnaður, eins og ég sagði áðan, þá er eðlilegt að menn gefist hreinlega upp á því að reka þessar verslanir. Það hefur komið fram að birgjar mismuna þessum verslunum gagnvart lágvöruverslunum sem þeir eiga viðskipti við. Menn sitja ekki við sama borð þegar þeir kaupa af birgjum, þ.e. smávöruverslanir úti um landið og lágvöruverslanir. Það er mjög erfitt að halda þessari þjónustu uppi, sem þarf vissulega að gera svo að það sé byggilegt á þessum stöðum. Þegar það tekur tvo, þrjá tíma að fara í næstu lágvöruverslun þá segir sig sjálft að það verður að vera einhver önnur verslun sem brúar bilið.

Það er margt annað gagnrýnisvert í þessu frumvarpi. Það er hækkun virðisaukaskatts á menningu, bókaútgáfu og tónlist. Þá vil ég líka nefna tímarit. Úti á landi er verið að reyna að halda uppi útgáfu landsmálablaða og hækkun á virðisaukaskatti kemur illa við þá starfsemi, tímaritaútgáfu og blaðaútgáfu, vikublöð og annað því um líkt. Það er margt þarna sem mun leggjast mjög þungt á almenning í landinu og að mörgu leyti enn þyngra á ákveðna hópa úti á landi þegar þessar aðgerðir leggjast allar saman.

Bændasamtökin hafa líka gagnrýnt hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og sagt að sú ráðstöfun geri innlenda matvælaframleiðslu síður samkeppnishæfa við innflutta vöru. Ég hefði haldið að Framsóknarflokkurinn mundi hlusta á þær raddir.

Ég hef verið hugsi yfir öllum undanþágunum á virðisaukaskatti. Það sem ég er ánægð með í þessu frumvarpi er að afþreyingargeirinn innan ferðaþjónustunnar, hvaða nafni sem hann nefnist, er settur þar inn og á að greiða virðisaukaskatt. Síðasta ríkisstjórn áformaði að gera slíkt en þá barðist núverandi meiri hluti gegn því, en nú gengur hann þau skref og það er gott.

Af hverju í ósköpunum er ekki lagður virðisaukaskattur á sölu kvóta, aflamarks? Af hverju er ekki lagður virðisaukaskattur á leigu af kvóta? Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því. Þó að það sé ekki virðisaukaskattur af seldum fiskafurðum sem fara út fyrir landsteinana þá finnst mér stjórnmálamenn eiga að taka upp umræðu um að leggja virðisaukaskatt á kvótasölu og kvótaleigu. Ég held að það mundi draga þessi viðskipti upp á borðið og þá væri gegnsærra hvað þarna væri á ferðinni. Þetta mundi kannski draga úr braski og því að menn gerðu út á það að nýta sér ekki þær aflaheimildir sem þeir hefðu til ráðstöfunar heldur teldu þeir sig koma betur út úr því að leigja þær frá sér til að ná sem hæstu verði þannig en ekki með því að nýta sér þær sjálfir. Ég vil í fullri alvöru láta skoða það að leggja virðisaukaskatt á sölu og leigu á aflaheimildum. Mér fyndist gott að heyra frá einhverjum stjórnarliða eða öðrum hv. þingmanni hvort það mætti ekki alveg skoða það eins og að hækka virðisaukaskatt á matvæli sem mönnum finnst svo sjálfsagt.

Samkomulag tókst loksins á milli flokkanna um að koma með sáralitlar mótvægisaðgerðir sem gagnast langt í frá öllum og felast í að lækka áformað þrep virðisaukaskatts á matvæli um eitt prósentustig. Maður spyr sig: Til hvers er leikurinn gerður þegar fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að virðisaukaskattur á matvæli eigi að fara upp í 14% 1. janúar 2016? Ég veit ekki hvaða nafni ég á að kalla slíkan leik. Er þetta ekki skollaleikur til að friða Framsóknarflokkinn og blekkja þjóðina? Ég get ekki ímyndað mér annað en að verkalýðshreyfingin rísi upp á afturfæturna við þessa endanlegu ákvörðun stjórnarflokkanna um að ganga þennan veg og stilli kröfur sínar í samræmi við það sem menn ætla að hrinda út í verðlagið.

Menn geta ekki endalaust falið sig á bak við það að meðaltalið skili þetta og þetta miklu að meðaltali þegar hver heilvita maður sér að þessar mótvægisaðgerðir skila sumum þjóðfélagshópum, þ.e. þeim betur settu, meiru. Það er stöðugt verið að færa þeim sem meira eiga meira en að láta þá sem eiga minna draga fram lífið á einhverjum sultarlaunum. Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn viðurkenni það að hún ber ekki hag þeirra verst settu í þjóðfélaginu fyrir brjósti. Hún mundi annars ekki koma með slíkar aðgerðir vitandi afleiðingarnar og segja að þær væru ásættanlegar að meðaltali og skiluðu um 6,2 milljörðum í plús fyrir neytendur í landinu. Ég hugsa að margt launafólk vilji gera sig meira gildandi sem neytendur í landinu en það er ekkert val hjá fólki að gera það.

Við stærum okkur af því að vera bókmenntaþjóð og erum stolt af unga tónlistarfólkinu okkar sem sigrar heiminn og viljum halda á lofti menningu okkar í hugverkum og skáldskap af ýmsu tagi. Þessi ríkisstjórn tekur ekki mark á því að bókaútgáfa á Íslandi á undir högg að sækja. Það er ekki sjálfgefið að við þessi litla þjóð höfum svo marga góða höfunda og fræðimenn og aðra sem hafa gefið út bókmenntaverk, ýmsar listaverkabækur, barnabækur og hvaðeina, að svona lítið þjóðfélag rísi undir því. Það er mikið högg fyrir þennan geira að virðisaukaskattur hafi verið hækkaður. Það hefur verið á brattann að sækja og ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Þetta er blaut tuska framan í fólk sem hefur verið að vinna af miklum baráttuhug og haft metnað í þessum málum að leiðarljósi.

Ég vil benda á að fimm þjóðir í Evrópu leggja engan virðisaukaskatt á bækur til að undirstrika mikilvægi bóka. Það er skilvirkasta leiðin til læsis að varðveita tungumálið. Við tölum öll þannig á hátíðarstundum að við viljum varðveita tungumálið vegna þess að vitum alveg að í breyttum heimi er á brattann að sækja og aðgengi barna og unglinga að góðum bókmenntum við sitt hæfi er gífurlega mikilvægt. Ég nefndi það hér áðan í andsvari við annan hv. þingmann að ég hefði áhyggjur af aðgengi láglaunafólks að íslensku bókmenntaefni og útgefinni tónlist. Þetta er áhyggjuefni. Fólk situr ekki við sama borð. Fólk hefur enn síður efni á að kaupa bækur eða geisladiska handa börnunum sínum í jólagjöf þegar virðisaukaskatturinn hefur hækkað á hvoru tveggja. Það er verið að breikka bilið í þjóðfélaginu. Fólk situr því miður ekki við sama borð. Ég hefði ekki trúað að við mundum verða stéttskipt þjóðfélag en það er veruleikinn hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum. Ég held að ríkisstjórnin muni ekki ríða feitum hesti frá þessum aðgerðum. Ég held að þær eigi eftir að valda mikilli ólgu og reiði í þjóðfélaginu og geri kjarasamninga fram undan enn erfiðari. Ríkisstjórnin er ekki að kaupa sér neinn frið með þeim málamyndaaðgerðum sem þarna eru á ferðinni og eru henni ekki til sóma.