144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þori ekki að nefna neinar tölur í þessu sambandi en ég tel mjög brýnt að láta reikna út hvað þetta þýði. Ég er svolítið undrandi á sjálfri mér og öðrum fyrir að hafa ekki viðrað þessa hugmynd áður. Það fara auðvitað gífurleg viðskipti fram með leigu á aflamarki innan ársins. Ég mundi láta reikna þetta út en ég held að það geti verið um að ræða háar fjárhæðir. Ég ætla að vera það varkár að nefna ekki neinar tölur en þarna eru á ferðinni gífurlega fjárhæðir sem við höfum ekki horft neitt til en gætum jafnvel slegið tvær flugur í einu höggi, bæði væru viðskiptin frekar uppi á borðinu, menn mundu kannski draga úr braski, og þetta nýttist þjóðfélaginu við uppbyggingu innviða samfélagsins.