144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmann til að afla upplýsinga um umfang þessara viðskipta og hversu miklum tekjum þetta gæti skipt í ríkissjóð. Í raun og veru er það þannig að ríkisstjórnin gerði það að sérstöku forgangsverkefni sínu að lækka veiðigjöldin í sjávarútvegi núna þegar hagnaður er þar meiri heldur en hefur verið nokkru sinni frá því að land byggðist um 870 og það nemur um það bil sömu fjárhæð, lækkunin á veiðigjaldinu, og verið er að leggja á heimilin í landinu nú með hækkunin á matarskattinum. Þetta eru kannski hátt í 100 þús. kr. á hvert heimili á ári sem verið er að leggja í álögur á heimilin til að kosta í raun þennan velgjörning við stórútgerðina í landinu. Þess vegna er skemmtilegt að heyra þessa athyglisverðu hugmynd frá þingmanninum um að finna aðra leið til að hafa tekjur af sjávarútveginum, undirstöðuauðlind þjóðarinnar.