144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú hugmynd sem hv. þingmaður varpaði hér fram, um að setja virðisaukaskatt á sölu og leigu á kvóta, er hreint út sagt stórkostlegasta hugmynd ekki bara kvöldsins heldur síðustu mánaða. Ég tel að þetta sé ákaflega skarplega athugað hjá hv. þingmanni.

Ef ég mætti bæta inn í einni röksemd þá er hún þessi: Við viljum gera allt til að hjálpa til og létta líf hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Og hver er mantra hans þessa dagana? Það er að fækka undanþágum, lækka virðisaukaskattinn en láta hann ná yfir sem breiðast svið. Hér er heldur betur kominn stofn sem við getum sett virðisaukaskatt á og sennilega lækkað hann allmjög en samt haft mikinn og rúman afgang til að nota í að styrkja innviði samfélagsins.

Mig langaði hins vegar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig finnst henni skatturinn og hækkun á matarskattinum horfa við frá sjónarhóli margra kjósenda hennar, sauðfjárræktarbænda?