144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held raunar að ef þessi leið yrði farin með virðisaukaskatt á kvóta yrði um að tefla gríðarlega háar upphæðir. En því nefndi ég sauðfjárbændur vegna þess að ég hygg að það sé, eins og hv. þingmaður sagði, nær enginn hópur í landinu sem býr við jafn erfið kjör; ef um er að ræða algerlega hreina sauðfjárbændur, þá sem ekki gera neitt annað.

En í þessari umræðu og í fjölmiðlaumræðu um matarskattinn hefur ákaflega lítið borið á því að menn komi þeim til varnar. Þessi ákvörðun kemur gersamlega fyrirvaralaust yfir þá. Gleymum því ekki að þeir sem eru að beita sér fyrir þessum breytingum rifu sig niður fyrir þind á sínum tíma þegar verið var að reifa hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu eða afnema undanþágur innan greinarinnar. Af hverju? Það var svo lítill fyrirvari. Menn og konur sem stunda sauðfjárrækt þyrftu sennilega tveggja til þriggja ára fyrirvara til að geta búið sig vel undir hækkun matarskattsins.

Menn gleyma þessu. Sérstaklega eru það hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem gleyma þessu alltaf og ætti þeim þó að renna blóðið til skyldunnar.