144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sagt og ég trúi því að ef þeir sem eru með lægri tekjur fá meiri ráðstöfunartekjur í hendur þá nýtist það strax til aukins hagvaxtar í þjóðfélaginu vegna þess að innbyggða þörfin fyrir aukna neyslu, uppsöfnuð þörf, er það mikil að hver einasta króna sem verður til aukinnar ráðstöfunar hjá lágtekjufólki og meðaltekjufólki fer í að versla. Það er þörf á að kaupa fatnað og ýmislegt til heimilishaldsins, endurnýja ýmsa hluti. Þetta fer allt út í neyslu sem þýðir aukinn hagvöxt í landinu. Það ætti því að vera hverjum stjórnvöldum keppikefli (Forseti hringir.) að bæta kjör þeirra lægst launuðu því að það skilar sér aftur í hagvexti fyrir þjóðina.