144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég horfi oft á sjónvarpsþátt sem er á sunnudagskvöldum, framhaldsþátt sem sýnir hvernig stéttaskiptingin var í Bretlandi eða Englandi árið 1924 þar sem fólk lifði algerlega ólíku lífi, þjónustufólkið, lágstéttin og svo hástéttin í sínum bómulvafða heimi. Ég held að við séum að stefna í þá áttina, því miður. Við, sem höfum alltaf stært okkur af því að vera stéttlaust samfélag þar sem fólk deilir kjörum og börnin okkar geta lifað með reisn við hlið annarra barna þó að þeir foreldrar séu betur stæðir því að þeir foreldrar sem hafa minna milli handanna eru samt aldrei það illa settir að þeir geti ekki skapað sér og fjölskyldu sinni þokkaleg lífskjör. Við stefnum því miður í átt að aukinni stéttaskiptingu.