144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég deili alveg áhyggjum hljómplötuútgefenda í þessum efnum og öðrum sem semja tónlist og eru í tónlistargeiranum. Það er vitað að plötusala hefur dregist saman um 50% frá árinu 2000 og við eigum á brattann að sækja. Við höfum flott tónlistarfólk á öllum stöðum í tónlistargeiranum, allt frá sígildri tónlist til popptónlistar en við erum að gera því fólki miklu erfiðara fyrir að halda áfram að vinna í sínu fagi og til að geta selt tónlistina með því að hækka virðisaukaskattinn eins og menn eru að gera hér. Þegar menn eru í barningi að halda sjó eins og hlutirnir eru í dag þá segir sig sjálft að þessar álögur og hækkanir geta hreinlega verið rothögg á greinina. Viljum við sjá það? Viljum við gera þeirri grein svo erfitt fyrir að hún verður bara að kikna undan þeim álögum?