144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt umræðunum sem hér voru um virðisaukaskatt á gistingu vorið 2013 þá auka menn tekjurnar í raun með því að hafa skattinn lágan, þess vegna dró ég það einmitt upp. En við vitum kannski ekki alveg hvar skurðpunkturinn er. Þess vegna var ég að velta því fyrir mér hvenær neytandinn hættir að vilja kaupa bækur, hvar þröskuldurinn er. Það væri mjög áhugavert að skoða.

Við tökum smááhættu, finnst mér, með því að hækka verð á bókum og menningu og hljómplötum og öðru því að við vitum ekki alveg hvaða áhrif það mun hafa. Við vitum þó að það mun hafa áhrif á bókaútgáfuna sem gefur tiltölulega marga titla út. Það mun örugglega breytast vegna þess að of margar bókaútgáfur standa því miður ekki undir því að vera á svona litlu málsvæði. Ég hef einmitt sérstakar áhyggjur af bókum.