144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða ræðu sem hér var flutt og sérstaklega tilvitnanir í ræður fyrir tíðar frá því um sumarið 2013 þegar núverandi ríkisstjórn var nýbúin að taka við valdataumunum. Það var mjög fróðlegt að heyra tilvitnanir í ræður um virðisaukaskattinn á ferðaþjónustu. Auðvitað hefði verið meiri bragur að því að stjórnarþingmennirnir sjálfir gengjust við orðum sínum og skýrðu hvers vegna þeir hefðu ákveðið að skipta um skoðun. Það er ekkert að því að skipta um skoðun hvað varðar virðisaukann eða hvað annað. En það var eitt sem gleymdist í þessari sögulegu skírskotun, það er að ein röksemdin sem notuð var gegn virðisaukaskattinum á sínum tíma gegn fyrrverandi ríkisstjórn var sú að það hefði verið svo skammur fyrirvari. Þó var farið að tala um virðisaukann á ferðaþjónustu með árs fyrirvara og málið var síðan lögfest með hálfs árs fyrirvara (Forseti hringir.) ef ég man rétt. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að halda þessari sögulegu staðreynd til haga.