144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég styð þessa sögulegu skýringu. Þetta er rétt, talað var um skamman fyrirvara. (Gripið fram í.) Það er eins gott að passa sig hvað maður segir í þessum ræðustól því að það er allt skrifað niður og svo geta þingmenn skoðað það eins og ég gerði núna.

Auðvitað hafa allir rétt á að skipta um skoðun. Niðurstaða mín alla vega er að við höfum ekki rökin, við erum svona meira að finna einhverjar röksemdir fyrir einhverri ákvörðun og teygjum okkur oft kannski svolítið langt eins og mér fannst vera gert í umræðunni um virðisaukaskattinn á gistinguna. Mér fannst þetta svo ótrúlegt skref að ætla að lækka virðisaukaskattinn, þannig að ég sat hérna undir allri umræðunni og hlustaði, en það var nú samt sem áður gert og varð ríkissjóður af miklum tekjum þar, sem er miður. En nú hefur ríkisstjórnin aftur skipt um skoðun og ætlar að hækka virðisaukaskattinn á gistingu og það með mjög stuttum fyrirvara.