144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um gögn sem efnahags- og viðskiptanefnd hefði haft aðgang að varðandi ýmislegt í þessu sambandi, t.d. um áhrif þess á bókaútgáfu að virðisaukaskattur á bækur hækkar. Því er til að svara að ég held að bestu upplýsingarnar komi frá bókaútgefendunum sjálfum.

Þeir komu fyrir nefndina og lýstu mjög þungri stöðu bókaútgáfunnar og sögðu að nógu erfið væri bókaútgáfa í dag, sérstaklega á góðbókmenntum eða dýrari bókum; nefndu sem dæmi myndskreyttar barnabækur sem nánast væri ógerningur að gefa út nema með miklu tapi nú þegar og þyldu þar af leiðandi ekki frekari álögur.

Í öðru lagi var spurt hvort menn gerðu ráð fyrir breyttri sölu til lækkunar eða hækkunar þegar verðin breytast. Ég geri ráð fyrir að eins og venjulega reyni ráðuneytið að minnsta kosti að horfa eitthvað til verðteygnihugmyndafræðinnar þegar kemur að þessu og geri eitthvert lauslegt mat á því eftir atvikum, að með hækkunum dragi eitthvað úr sölu og öfugt. En augljóslega (Forseti hringir.) er stærsti gallinn í þessum útreikningum sú gefna forsenda að allar verðlækkanir skili sér strax og 100% út í verðlagið. Það hefur vinna nefndarinnar tvímælalaust leitt í ljós.