144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar eða svar. Maður furðar sig á því af hverju ekki er komið neitt til móts við þessa atvinnugrein, sem er bókaútgáfan. Ég sé ekki nein merki þess í fjárlagafrumvarpinu eða í breytingartillögunum.

Við höfum lönd eins og Danmörku sem er með eitt virðisaukaskattsþrep sem er mjög hátt, en þar á móti kemur að þar eru menn með mótvægisaðgerðir sem virka. Það er það sem ég hef áhyggjur af hér. Ég er ekkert frá því að það gæti verið gott að vera með eitt virðisaukaskattsþrep, en mótvægisaðgerðirnar verða þá að vera almennilegar. Mér finnst skortur á þeim og líka skortur á famtíðarsýn.

Við vitum ekki alveg hvort við erum að stefna í átt að einu þrepi eða hvort við ætlum að láta þau tvö, sem verða þá eftir þessa breytingu, færast hvort nær öðru og hvort það verði þá á hverju ári eða annað hvert ár, þannig að mér finnst þetta allt mjög óljóst. Mér finnst það vont.