144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þrátt fyrir allt er veltan í bókaútgáfu á Íslandi það mikil að þessi 4 prósentustiga hækkun hleypur á verulega háum fjárhæðum. Í tilviki stærsta forlagsins, og kannski tveggja til þriggja stærstu, er sveiflan í skattbyrðinni trúlega upp á tugi milljóna kr., allt að 50 til 60 milljónir hjá stærsta útgefandanum og síðan þaðan af minna eftir því sem hlutdeild þeirra á bókamarkaðnum er minni.

Ef við berum það svo saman við það sem við sjáum í breytingartillögum meiri hlutans — jú, jú, það er verið að setja 15 milljónir í viðbót í bókasafnssjóð, en það eru smáaurar borið saman við einhver hundruð milljóna sem auknar álögur á bókagreinina í formi hækkunar á virðisaukaskatti eru, ég tala nú ekki um ef við tökum blöð og tímarit og allt saman með. Það eru hreinir smáaurar borið saman við áhrifin af þessum skattbreytingum sem þar eru á ferðinni.