144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir alveg ljómandi ræðu. Það er mjög einföld ástæða fyrir því að ég greiddi atkvæði gegn því að taka upp 14% skatt á gistingu. Ég vildi bara ekki bæta enn einu skattþrepinu við og ég vildi ekki flækja kerfið enn meira og gefa enn meiri möguleika á misnotkun.

Varðandi það hvort búið sé að gera greiningu á áhrifunum þá kom í ljós, þegar við fórum að kanna þetta, og ég kannaði þetta líka í annarri nefnd, að námslánin trufla alla hagtölugerð; námslánin, það sem fólk fær lánað fyrir framfærslu. Það eru 12.000 manns, 8% þjóðarinnar, sem fá 16 milljarða á ári að láni fyrir framfærslu sinni, barna sinna og jafnvel maka. Þetta ruglar allt dæmið, því að þetta fólk er oft með mjög lágar tekjur og þetta kemur fram sem mjög mikil fátækt en er það í raun ekki. Þetta gerir að verkum að mjög erfitt er að greina hina raunverulegu fátækt sem eflaust er til í þjóðfélaginu.