144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er klárlega önnur aðferð. Það er náttúrlega hægt. Við getum líka sagt að hættan á því væri sú að það yrði svo auðvelt að hætta þessari millifærslu einhvern tíma eða lækka hana. Ég sé hættuna liggja í því. Vafalaust getur þetta verið svolítið flókið með hópferðabílana. Þeir eru notaðir til hinna ýmsu þarfa, en í öllum þessum bílum eru svokallaðar kjaftakerlingar sem eru ökuritar sem verða að vera í bílunum. Ég man eftir því þegar var verið að setja þá í bílana. Það vildi svo til að ég var þá að vinna við þessi mál hjá EFTA þannig að ég fylgdist vel með því þegar það var verið að setja þá í bílana. Við vorum náttúrlega þá, eins og við erum svo oft, heilagri en páfinn. Það voru settar mjög strangar reglur um hvernig þeir ættu að virka. Þetta er sem sagt í öllum hópferðabílunum. Í öllum þessum bílum eru ökuritar. Það skal enginn segja mér að það sé ekki hægt að forrita þá einhvern veginn eða stilla svo að það sé alveg ljóst hvað er verið að gera. Svo er farið að gera eitthvað annað, þá er í ökuritanum hvort viðkomandi var í skólaakstri eða einhverjum öðrum akstri. Ég held að það sé ekki jafn flókið og menn vilja vera láta að halda þessu aðskildu.

Ég er hrædd við hina leiðina út af því að það væri svo (Forseti hringir.) auðvelt að lækka bara styrkinn (Forseti hringir.) til almenningssamgangna.