144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sé ekki alveg fyrir mér það sem hún var að útlista, en það breytir því ekki sem ég er að reyna að koma inn á sem er sú skýring að þetta eigi að minnka flækjustigið, væntanlega vegna þess að færri svíki undan skatti ef hann er hærri. Mér hefur fundist það vera rökin. Ég hef ekki fengið það til þess að fúnkera í mínu höfði en það má vel vera að það geri það í huga þeirra sem flytja þetta mál og væntanlega gerir það það.

Getur ekki þingmaðurinn tekið undir það með mér að þegar við fórum í skattbreytingar 2007, að mig minnir, þegar var verið að hreyfa til virðisaukaskattinn, þá er eitt af því sem ítrekað er bent á í umsögnum að það hafi ekki skilað sér til neytenda? Nú veit ég ekki hvort fyrir liggja einhverjir útreikningar, ég hef a.m.k. ekki séð neina, fyrir því að þetta verði eitthvað öðruvísi núna, að lækkunin á efra þrepinu skili sér síður út í verðlagið. Við erum viðkvæm fyrir því og teljum að hækkanirnar skili sér frekar út í verðlagið. Þetta er eins og með olíu- og bensínverð, það virðist alltaf vera til nóg af birgðum í landinu þegar verð lækkar úti í heimi en ekki á hinn veginn.

Af því að þingmaðurinn viðraði prósentutöluna hér áðan þá kom það fram í máli fjármálaráðherra að hann liti á þetta sem leið upp í 14%, þetta væri bara áfangi á þeirri leið. Því væri æskilegt að framsóknarmenn, sem settu fyrirvara við frumvarpið, svöruðu því hvort þeir kostuðu bara eitt prósentustig, þ.e. úr 12% í 11%, eða hvort þetta hafi verið fyrir fram ákveðið. (Forseti hringir.) Þá er í rauninni (Forseti hringir.) — og ég vil vita hvort þingmaðurinn er sammála mér — bara verið að … (Forseti hringir.) Þetta er … (Forseti hringir.) í eitt ár eða svo, þá verður virðisaukaskatturinn hækkaður.