144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að nota orðið „skelfilegt“, það er skelfilegt ef það á að stíga þetta skref núna og svo annað skref eftir ár. Ég get alls ekki skilið hvernig framsóknarmenn ætla að réttlæta það fyrir sér að fara í 11% núna og fara svo með virðisaukaskattsþrepið upp í 14% á næsta ári.

Síðan er talað um skilvirknina. Mér skilst að þegar menn tala um að virðisaukaskattskerfið sé skilvirkt þá sé það af því að það skili inn þeim tekjum sem því er ætlað að skila og það geri kerfið óskilvirkt að hafa prósentuna mjög háa. Ég skil alls ekki að það sé eitthvað minna skilvirkt að bilið á milli efsta og lægsta þrepsins sé mikið. Ég skil ekki af hverju það er eitthvað minna skilvirkt en að bilið sé lítið.

Ég hallast nú að því að í þessum málum eigum við að vera með hart og gott skatteftirlit. Það er mjög einfalt. Við eigum bara að fylgja því eftir að fólk og fyrirtæki fari að lögum og borgi þá skatta og þær skyldur sem þeim ber. Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé rétt hjá mér. Nú er verið að skera niður hjá skattrannsóknarstjóra, en ég held að eftirlit sé miklu betri aðferð til að kerfið sé skilvirkt (Forseti hringir.) en sú sem lögð er til hér.