144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og fyrir það að minna á ummæli hæstv. forsætisráðherra sem hefur hringsnúist í sannfæringu sinni á örskömmum tíma eftir því hvort hann var í stjórnarandstöðu eða stjórnarmegin.

Hið gagnlega þó við þessa umræðu er að hér hafa komið talsvert til umræðu ýmsar undanþágur í virðisaukaskatti og réttmæti þeirra. Eftir ábendingar við 1. umr. hefur verið gerð sú breyting á að Bláa lónið mun framvegis eftir samþykkt þessa frumvarps standa skil á virðisaukaskatti eins og ýmsir aðrir aðilar í ferðaþjónustu.

Ég spyr þingmanninn um enn eina undanþáguna, af því að hún nefndi laxveiðina sem er undanþegin. Nú er það svo að öll þjónustugjöldin í bankakerfinu, sem hafa oft verið umrædd, núna síðast í tengslum við sölu á fyrirtækjum sem innheimta slík þjónustugjöld og skipta verulegum fjárhæðum, þau þjónustugjöld eru undanþegin virðisaukaskatti. Væri það kannski ekki, ásamt með þeim hugmyndum sem komu fram hér fyrr í umræðunni um að undanþiggja ekki viðskipti með kvóta virðisaukaskatti, þáttur sem þingmaðurinn teldi rétt að skoða líka á milli umræðna? Eru fleiri undanþágur eða fleiri þættir sem þingmaðurinn teldi ástæðu til að nefndin kannaði á milli umræðna hvort vert væri annaðhvort að færa á milli þrepa eða fella niður undanþágur á? Væri til dæmis ekki full ástæða til að skoða sykruðu vörurnar, hvort þær ættu að fara upp í efra þrepið? Já, og jafnvel með hluta af ferðaþjónustunni, að engin ástæða sé til þess að vera með hana í lægra þrepi virðisaukaskattsins, heldur eigi erlendir ferðamenn að borga fulla skatta og skyldur hér eins og víða annars staðar.