144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið, þó að ég verði að viðurkenna að mér finnst það pínulítið óljóst. Ég er ekki alveg viss um hvert hv. þingmaður mundi þá vilja stefna með þessu. Er hann að gefa í skyn að við ættum kannski að ganga alla leið og íhuga að setja hér á alvörusykurskatt með lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi? Er það eitthvað sem hv. þingmaður telur koma til greina? Er það leið sem hann telur að við ættum kannski að fara?

Mér finnst þetta mikið alvörumál því að ég hef áhyggjur af því að þessar breytingar geti leitt til stéttskiptingar þegar kemur að mat. Hollur matur verður munaðarvara en vegna þess að sykruðu matvælin verða hlutfallslega ódýrari verða þau kannski kostur sem hinir tekjulægri verða að sætta sig við. Ég held því (Forseti hringir.) að það sé mjög mikilvægt að við eigum þessa umræðu og mér þætti mjög áhugavert að vita hvaða sýn (Forseti hringir.) hv. þingmaður hefur á þetta.