144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má segja að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hafi tekið af mér ómakið vegna þess að ég ætlaði að gera sömu atriði að umræðuefni í kjölfar þess að hv. ræðumaður gat þess að um vörugjöldin væri sæmileg sátt. Sér hefði virst það af umræðunni hér í dag. Ég held að það sé alls ekki svo. Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir benti réttilega á er ekki sátt um afnám sykurskattsins. Við erum að tala um að ríkissjóður verði af 6,5 milljörðum þannig að þegar staðhæft er að þetta snerti í rauninni engan, jú, þá snertir þetta pyngju ríkissjóðs sem er ekki allt of vel haldinn þessa dagana.

Það er satt að ef við ætlum að kaupa okkur rafmagnstæki (Forseti hringir.) kemur það til góða þegar vörugjaldið hverfur eða ef við neytum gosdrykkja mikið veldur lækkun á þeim okkur kaupmáttaraukningu. (Forseti hringir.) En ég hefði haldið að þetta væri ekki í þeim anda sem hv. þingmaður talar í.