144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hafði ákveðið að kveðja mér hljóðs í því umdeilda máli sem það er að breyta virðisaukaskattskerfinu, í átt til einföldunar, segir stjórnarmeirihlutinn. Þessa einföldun finn ég ekki í hjarta mínu, að hafa þrepin áfram tvö, þó að hlutfallið breytist úr 7% í 11% en ekki í 12% eins og áður hafði verið gert ráð fyrir. En rökin hafa verið þau að færri svíki undan skatti eftir því sem bilið á milli er minna. Það má vel vera að svo sé en það er ekki einföldun á kerfinu sem slíku, tæplega.

Mig langaði aðeins að fara yfir nefndarálit sem minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd skrifaði og er gagnrýnið á þetta og lýsir viðhorfum okkar sem í minni hlutanum erum og tekur á helstu þáttum sem okkur greinir á um. Það er þetta með vörugjöldin, sem hér voru nefnd áðan — almennt er ánægja með þá niðurfellingu fyrir utan títtnefndan sykurskatt sem okkur finnst varhugavert að fella niður í ljósi þeirra lýðheilsumarkmiða sem við höfum sett okkur. Það er í raun merkilegt að það sé ekki haft í huga þegar þetta er gert. En það var ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður, sem á undan mér talaði, var tilbúinn til að skoða þetta strax, þ.e. sykurskattinn varðandi gos og sælgæti. Nú er hann ekki hér. Ég átta mig þá ekki á því hvort hann ætlar að gera breytingartillögu við það frumvarp sem hér liggur fyrir milli 2. og 3. umr. eða hvort hann ætlar fyrst að setja skattinn upp í efri mörkin og svo að taka hann aftur af eða lækka hann, það má vel vera. Mér finnst það hins vegar ekki mjög skynsamleg nálgun af því að ef raunverulegur vilji er á bak við það að setja sykurskatt á þessa tilteknu vöru þá á auðvitað að gera ráð fyrir því í þessum breytingum. En kannski er ekki samstaða um það innan meiri hlutans.

Í áliti meiri hlutans kemur fram að ráðstöfunartekjur batni um 6,2 milljarða þrátt fyrir að neðra þrepið hækki og efsta þrepið eigi að skila neytendum 7,5 milljörðum og almenn vörugjöld 6,5 milljörðum og barnabæturnar eiga að skila milljarði. Mér finnst rétt að kalla eftir því, af því að það kemur fram í áliti minni hlutans að ekki hafi verið gerðar neinar fráviksgreiningar á þessu frumvarpi og ljóst að ekki þarf mikið út af að bregða til að þetta skili sér ekki allt. Við höfum því miður ekki góða reynslu af því og þrátt fyrir að hér sé nú tíundað og talað um að við eigum öll að hjálpast að við að fylgjast með því hvort þetta skilar sér til okkar eða ekki þá var það svo 2007 að slíkar breytingar skiluðu sér ekki alla leið alveg 100%. Það virðist vera gert ráð fyrir því hér að svo verði og væri áhugavert að vita hvort efnahags- og viðskiptanefnd hefur kallað eftir einhverjum sviðsmyndum í þessu samhengi, einhverri fráviksgreiningu (PHB: Búið að tala um það.) — fyrirgefðu, hv. þm. Pétur H. Blöndal, ég hafði ekki heyrt það, enda var ég ekki í sal í allan dag, ég játa það. En ef það er til er ástæða til að leggja það hér fram og sýna það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sjá hvað þetta getur gert.

Við höfum talað um sykurskattinn og hér er rætt um að sykur sé í öllum vörum. Nú veit ég til dæmis ekki hvort þær vörur sem koma að mörgu leyti í staðinn fyrir sykur, svo sem súkrín og stevía sem eru þá miklu hollari afurðir, þetta eru innfluttar vörur, hvort vörugjöld af þeim verði afnumin (Gripið fram í.) — það er ekki jafn hollt. Þetta telst nokkuð góð vara og getur að mörgu leyti komið í staðinn fyrir hitt en þó ekki að öllu leyti. En það væri mjög áhugavert með tilliti til lýðheilsusjónarmiða að auka notkun á þeim efnum frekar en sykrinum.

Síðan hefur verið töluvert rætt og ekki að ástæðulausu um bækurnar, bókaútgáfu og annað því um líkt og full ástæða til. Hér eru ályktanir þar sem kemur ágætlega fram um hvað verið er að ræða í því sambandi. Það kemur til dæmis fram, í umsögn frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, að það séu fimm þjóðir í Evrópu sem leggja engan virðisaukaskatt á bækur, meðal annars vegna þess að það er viðurkennt sem skilvirkasta og sanngjarnasta leiðin til læsis, lesskilnings og varðveislu tungumálsins.

Hér er líka sagt frá því að 20 þjóðir í Evrópu leggja lægri virðisaukaskatt á bækur en 7% eins og við búum við núna en bara þrjár sem eru með hærri virðisaukaskatt á bækur og þar er Búlgaría nefnd þar sem læsi mælist lakast í allri álfunni. Þetta er eitt af því sem við þurfum að hafa í huga af því að, eins og rakið hefur verið í öðrum umræðum, það er mikilvægt að viðhalda máli okkar þar sem málsvæðið er nú ekki stórt. Þetta er hluti af því að við getum gefið út bækur svo sómasamlegt sé án þess að allt fari á hliðina eða þá kannski, eins og hér er bent á, að barnabækur, sérstakar bækur í dýrari útgáfum, hreinlega leggist af af því að það sé dýrt að myndskreyta barnabækur og þessar þýddu stóru heimsbókmenntir séu mjög dýrar í útgáfu og skila í sjálfu sér ekki miklu í kassann til þeirra sem gefa út. Þetta veikir okkur mjög og eftir hrun hefur salan dregist saman um 19%, eða veltan hjá íslenskum bókaútgefendum, þannig að þar er ekki á bætandi ef þetta frumvarp verður að veruleika. Og mér finnst það mjög sérstakt, í ljósi þess sem virðist hafa komið fram í nefndinni og kemur fram í þessu áliti, að ekki hafi verið hugsað neitt fyrir því að hafa bækurnar undanþegnar.

Varðandi hljómplötuútgáfuna og geisladiskana; það er líka rakið í erindi frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda þar sem bent er á að ef þessi virðisaukaskattshækkun verður að veruleika sé um að ræða 72% hækkun á geisladiskum og rafrænum miðlum með tónlist. Það eru fáir, held ég, sem lenda svo illa í því. Það er með þetta eins og bækurnar að þar hefur salan dregist mjög mikið saman eða um 50% á síðustu 14 árum og á fyrstu sex mánuðum þessa árs er samdráttur í geisladiskasölu um 19%. Það boðar því ekki gott að þessi hækkun komi núna á þennan hátt og veikir enn frekar þennan iðnað okkar.

Það kemur fram í áliti minni hlutans að tillögur nefndarinnar eru vanbúnar og frekar til þess fallnar að auka flækjustig í framkvæmd. Meðal annars er bent á fyrirtæki í fólksflutningum þessu til stuðnings. Það er eiginlega merkilegt að lesa hér að greiningin á milli baðstaða og sundstaða virtist miðast við klórmagn í vatni. Það virðist alltaf eiga að ráða för, þ.e. ekki eðli starfseminnar. Það er mjög áhugaverð nálgun svo að ekki sé meira sagt. Einnig er rakin gagnrýni frá Samtökum atvinnulífsins þar sem þessar hugmyndir, um þessa breikkun á skattstofnum og mótvægisaðgerðirnar, væru ekki fullnægjandi en ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess af hálfu meiri hlutans.

Það er alvarlegt mál að ætla að hækka matarskatt, hækka verð á nauðsynjavörum. Allir þurfa að borða. Það liggur fyrir — og ég hef ekki ástæðu til að draga það í efa, meðal annars frá ASÍ, þar sem gerðar eru athugasemdir við frumvarpið — að tekjulægstu heimilin noti allt að fimmtungi ráðstöfunartekna sinna til að kaupa mat en tekjuhæstu heimilin aftur 10% og því muni þessi 5% hækkun á mat- og drykkjarvörum, eins og hér hefur verið rakið áður, koma sér mjög illa fyrir tekjulág heimili sem nú þegar ná ekki endum saman.

Ekki virðast allir vera sannfærðir um að sú aðgerð sem hér er boðuð, þ.e. vörugjöldin og barnabæturnar, dugi til. Það kemur til móts við einhvern hluta, á því er ekki vafi, en ekki þá sem ekki eiga börn, eru námsmenn, einhleypingar eða eitthvað slíkt. Hér er líka vakin athygli á því að tekjuskerðingarmörk barnabóta eru lág þannig að barnafjölskyldur sem hafa lágmarkslaun á vinnumarkaði fá ekki óskertar barnabætur. Það er eitt af því sem við í fjárlaganefnd höfum vakið athygli á hér í ræðustól að þurft hefði að breyta viðmiðum barnabóta.

Afnám á vörugjöldum, eins og ég sagði áðan, hefur þessi takmörkuðu áhrif til lækkunar á matvöruverði á móti breytingunum sem þessi hækkun veldur. Hér hefur verið sagt að allir eigi þvottavél og eitthvað slíkt en það er nú bara ekki þannig. Ég bý í blokk og það er bara ein þvottavél fyrir okkur. Ísskápa og eldavélar endurnýjar maður á áratugafresti og maður borðar það ekki en maður notar það vissulega til að geyma matvöru og elda. En það er eitthvað sem við getum ekki sagt að sé raunveruleg mótvægisaðgerð fyrir fólk sem þarf að borða daglega, eins og við öll þurfum. Það er hins vegar til hagsbóta til langs tíma vissulega, og ég er ekki að mæla gegn því að vörugjöldin verði aflögð, ég held að það sé bara hið besta mál. Ég hef aftur á móti áhyggjur af því að það skili sér ekki með þeim hætti sem hér er lagt til og ekki að öllu leyti eins og hér hefur verið tíundað. Undir það tekur ASÍ og mun fleiri stéttarfélög sem skrifuðu nefndinni álit sitt á þessu frumvarpi og auðvitað eigum við að hafa áhyggjur af því að svona stór hópur fólks telur þetta vera vafa. Hér er vitnað í árið 2007, eins og ég gerði í andsvari áðan, þar sem þetta skilaði sér kannski ekki nægilega vel. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan var í stuttu máli sú að aðgerðin skilaði sér einungis að hluta, einkum skilaði lækkun vörugjalda á matvöru sér illa til neytenda, auk þess sem ýmsir minni liðir lækkuðu minna en tilefni var til og ber þar helst að nefna lækkun á verði á hótel- og gististöðum.“

Þeir hafa áhyggjur af því að þessar aðstæður gætu líka átt við núna þegar kaupmenn sjá fram á vaxandi eftirspurn og að einkaneyslan fari í kjölfarið vaxandi á næstu missirum og því skili þessi hvati í neyslusköttum sér minna út í verðlagið en hér er gert ráð fyrir. Þeir hafa áhyggjur af því að ef það gerist verði heildaráhrifin neikvæð. Og kannski hv. þingmaður úr efnahags- og viðskiptanefnd, sem ætlar að fara í andsvar við mig, geti þá sagt mér líka — til viðbótar er sagt hér að afnámið á vörugjöldunum gæti haft ýmsar neikvæðar þjóðhagslegar afleiðingar sem ekki er lagt mat á þar sem vörugjöld lækki og vörur sem í megninu eru innfluttar og eftirspurn næm fyrir verðbreytingum þannig að það gæti haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð.

Hér er líka talað um að færa ferðaþjónustuna upp og ég rifja upp, eins og fleiri hafa gert hér, að mikið var um það rætt þegar síðasta ríkisstjórn ætlaði að hækka upp í 14% og hv. þingmaður rökstuddi það áðan hvers vegna hann vildi ekki bæta við einu þrepinu enn, taldi það flækja og það eru rök út af fyrir sig. En einnig voru færð rök fyrir því að fyrirvarinn væri svo skammur en það virðist ekki eiga við núna. Það var eitt af því sem var notað til að rökstyðja það að þetta væri alveg ómögulegt á sínum tíma.

Í minnihlutaálitinu er líka vitnað í rannsókn sem Rannsóknasetur verslunarinnar gerði 2011 þar sem meginniðurstaðan er sú að vísbendingar séu um að hækkanir skili sér hratt út í verðlagið en lækkanirnar að litlu leyti. Það styðst við reynslurök íslensku þjóðarinnar og ég skil eiginlega ekki alveg af hverju meiri hlutinn er svo sannfærður um að þetta gangi allt eftir 100% — eða eru einhver frávik? Ég hef alla vega ekki heyrt það. Vel má vera að það sé en ég hef ekki séð það.

Þrátt fyrir allt vonast ég til þess að breyting verði í meðförum nefndarinnar af því að það er líka þetta sem hefur kannski aðeins verið viðrað hér að nú ætlum við að gera þetta um áramót. Er það endilega heppilegasti tíminn til svona breytinga? Við þekkjum það jú að þá fara útsölurnar í gang í búðunum og kannski erfiðara að mæla hvort það skilar sér eða ekki. Það er líka ein spurning. Er það svo að þetta beri að gera um áramót? Gætum við gert þetta á öðrum tíma? Ef við tökum eitthvert stökk í 12% en miðað við ríkisfjármálaáætlunina eiga 14% að taka við 2016, mig minnir það — telur nefndin og meiri hlutinn þetta gott? Ættum við að láta þetta duga eitthvað í bili eða á að fylgja þessu eftir?

Það væri áhugavert að heyra, af því að hér viðraði hv. þm. Willum Þór Þórsson það að föt og skór færu í neðra þrep, hvort það hefði verið rætt innan nefndarinnar, mér finnst ekki gott að setja eitthvað á í upphafi og lækka svo í framhaldinu. Ef það á að breyta þessu er betra að gera það strax. En hann lofaði því líka að með þessu frumvarpi væri verið að tryggja kjarabót allra tekjuhópa. Mér finnst það mjög stórt upp í sig tekið að svo sé og miðað við allar þær umsagnir sem ég hef vitnað í þá er ég ekki sú eina sem hef áhyggjur af því. Þess vegna fannst mér þetta frekar stórt upp í sig tekið.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa. Ég hef fyrir utan tekjutap ríkisins á þessu — hér var líka sagt að verið væri að velta þessu út í samfélagið, þessum 6 til 8 milljörðum, þá álít ég að það eigi að lenda hjá fólkinu en ekki eingöngu á verslununum eða innflutningsfyrirtækjum eða slíkum í ljósi þess að það skili sér ekki út í verðlagið. Og þá hef ég sérstaklega áhyggjur af lækkuninni af af því að í mínum huga er ekki vafi á því að hækkanir skila sér einhvern veginn alltaf. Eins og ég sagði áðan þá virðist það vera þannig, og við þekkjum það mjög vel í gegnum olíu og bensín, að það er alltaf til svo mikið magn af birgðum í landinu þegar mikil lækkun verður á heimsmarkaði en það er einhvern veginn ekki þannig þegar kemur að því að hækka. Og af hverju ætti þetta að verða eitthvað öðruvísi þegar þeir sem flytja inn vörur búa við það umhverfi að geta stýrt því svolítið hvernig þeir gera þetta?