144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um þá mótvægisaðgerð að lækka matvælaverðið með því að afnema innflutningsvernd á innlenda búvöruframleiðslu og kvóta. Þetta er það mál sem meiri hluti landsmanna er fylgjandi.

Við ræddum það fyrr í dag, ég og fyrrverandi formaður Vinstri grænna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, í andsvörum við ræðu mína þar sem ég tók þetta mál fyrir og sagði að skoða mætti það í ljósi þess sem þá á móti kæmi við það að þeirri tollvernd, ígildi ríkisstuðnings sem tollverndin er fyrir búvöruframleiðsluna, yrði skilað þá með öðru móti til búvöruframleiðenda í formi ríkisstyrkja eða öðru eins og gert er með grænmetisframleiðslu.

Aðrir þingmenn hafa bent á þetta og nefnt að hægt væri að skoða það mál. Hvers vegna? Jú, vegna þess að slíkur stuðningur, ígildi stuðnings sem búvöruframleiðendur njóta í formi verndartolla og verndarkvóta í innflutning á matvælum skilar sér ekki nema að 60% miðað við þann skaða sem neytendur verða fyrir í hækkun matvælaverðs. Þetta er svo óskilvirk leið að styðja við landbúnað. Með því að afnema tolla á matvæli og kvóta á matvælainnflutning væri hægt að lækka matvælaverð um rúmt 1%, 1,5% kannski, sem er akkúrat það sem vantar upp á þegar stjórnvöld hafa núna ákveðið að fara með lægra þrepið, sem er skattur á matvæli, úr 7% virðisauka upp í 11% í staðinn fyrir 12%. Samt sem áður mun matvælaverð hækka um (Forseti hringir.) 1–2%, segir formaður efnahags- og viðskiptanefndar. (Forseti hringir.) Hvað segir þingmaðurinn um þessa leið?