144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég hef verið frekar skeptísk á það að taka af þessa tolla gagnvart hinum íslenska landbúnaði. Bæði er það vegna þess að ég tel að við þurfum á því að halda að eiga hér góða framleiðslu sem mér finnst kannski vert að styðja við bakið á. Það má vel vera að hægt sé að afnema þessa tolla með ríkisstyrkjum á móti. En hverju erum við þá bættari í sjálfu sér ef við ætlum að ýta út jafn miklum peningum og jafnvel meira en við gerum nú þegar? Ég held að það hafi komið sér vel fyrir okkur að hafa þetta svona, það hefur kannski haldið lífi í þeirri framleiðslu. Og svo höfum við líka kannski verið að fá allt of mikið af upplýsingum um marga erlendar vörur sem ekki er vitað um upprunaland og ýmislegt fleira, meðferð á dýrum og margt annað sem ég tel að við höfum búið mjög vel við hér heima. Hluti af því er auðvitað að vernda þessar greinar, að þær geti yfirleitt verið sjálfbærar, þær eru það náttúrlega ekki af því að þær eru ríkisstyrktar, og bændur geti staðið undir því að vera í slíkri framleiðslu.

En auðvitað á að skoða allt, það á ekki að vera þannig að við séum föst í einhverju án þess að vilja velta því upp nákvæmlega eins og kannski hér er verið að gera með breytingar á þessu kerfi. Í hjartanu er ég alla vega ekki mjög heit fyrir því en gæti breyst ef einhver gæti sýnt mér fram á að það væri það besta sem við gætum gert fyrir land og þjóð. Hugsanlega yrði þetta til þess að vörur yrðu ekki eins fjölbreyttar og við höfum þær hér nú eða þá að aðrar vörur væru eitthvað meira en bara til að lækka vöruverð. Gæðin skipta líka máli. Ég er til dæmis algerlega á móti innflutningi á hráu kjöti svo það liggi fyrir.