144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn spyr: Hverju erum við bættari? Við erum nefnilega bættari vegna þess að það að styðja við landbúnaðinn með tollvernd er svo óskilvirk leið. Ígildi verndarinnar, þ.e. kostnaður fyrir neytendur í formi matvælaverðs skilar sér svo illa í styrki fyrir búvöruframleiðendur þannig að þessum peningi er náð inn í gegnum skilvirkari skatt en matartoll. Það skilar hlutfallslega miklu minni skaða fyrir neytendur í formi hærra verðs, sem skilar sér að meira leyti til búvöruframleiðenda. Það er það sem mundi skila sér. Með því að afnema tolla þá reiknaðist starfsmönnum þingsins á nefndarsviði sem fóru yfir þessi mál fyrir mig að þetta gæti verið 1,5% í matvælaverði til lækkunar sem er akkúrat það sem stendur út af. Er þetta þá ekki eitthvað sem ætti að skoða til að gera allt saman skilvirkara? (Forseti hringir.) En að sjálfsögðu er enginn að kalla eftir því að lappirnar verði skornar undan landbúnaðinum. Hann þarf að fá sitt á móti en í formi skilvirkara kerfis.