144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan tek ég undir með hv. þingmanni að það er alveg sjálfsagt einmitt að skoða eitthvað sem er skilvirkara. Ég held að við viljum öll hafa kerfið okkar sem skilvirkast. Við höfum vissulega mismunandi hugmyndir um hvernig það virkar, það er þannig, samanber þessi breyting á virðisaukaskattinum. Ég hef ekki þá ofurtrú á því að þetta sé skilvirkari leið og leiði til þess að minni skattsvik verði. Það skiptir líka máli hvaða leið við veljum að fara.

En ef það yrði raunverulega þannig að þetta mundi leiða til lækkunar á matvælaverði þá á að setja upp sviðsmyndir og skoða það. Og burt séð frá því hvort maður yrði svo hlynntur þessari aðferðafræði eða ekki af því að, eins og ég sagði áðan, það skilar sér í lækkun í matvælaverði en á móti kemur að ef á að auka ríkisstyrki á móti til að landbúnaðurinn geti starfað með sambærilegum hætti þá erum við líka að taka þær tekjur frá einhverju öðru, þ.e. þá erum við ekki að nota þessa fjármuni aftur í eitthvað annað, kannski í velferðarmál eða eitthvað slíkt.