144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún spurði um fráviksgreiningar og þá reikna ég með því að hún eigi annars vegar við verðteygni, hvað markaður fyrir matvörur mun minnka þegar skatturinn er hækkaður og einnig hvernig markaður fyrir þær vörur muni aukast þegar skatturinn er stórlækkaður, og það hefur fjármálaráðuneytið gert að einhverju leyti. Hins vegar er fráviksgreining á hina ýmsu tekjuhópa og þá lendum við í heilmiklum vanda vegna þess að við erum með 12 þúsund námsmenn sem fá lánað fyrir bæði framfærslu sinni og barna sinna og meira að segja maka í sumum tilvikum þó nokkuð góða upphæð samanlagt en af skattframtali hafa þeir lágar sem engar tekjur. Þeir eru jú í námi og ef þeir hafa tekjur þá skerðast námslánin o.s.frv. Þeir eru yfirleitt með tiltölulega lágar tekjur, oft með börn og eru sárafátækir en stefna í það að hafa hærri tekjur seinna meir og geta leyft sér neyslu af því að þeir fá lánað fyrir henni sem kemur ekki fram á skattframtali.

Varðandi sykurskattinn þá er hann náttúrlega forsjárhyggja. Það er draumur sumra að geta haft áhrif á meira að segja rígfullorðið fólk, sextugt til sjötugt eða áttrætt sem er miklu eldra en viðkomandi þingmaður. Það á að hafa vit fyrir fólki: Þessi á ekki að borða sykur af því að það er óhollt fyrir hann. Hann er svo vitlaus, hann veit ekki að þetta er óhollt fyrir hann. Ég ætla að hafa vit fyrir honum með því að hækka verðið þannig að hann geti ekki lengur keypt þessa vöru. — Þetta held ég að sé ekki sérstaklega gáfulegt. Það er miklu betra að fara þá leið eins og gert var með tóbakið og unglingana að upplýsa um hætturnar. Af því náðist ágætur árangur.