144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Gott að fá þetta upp. Það er alveg rétt, ég heyrði þetta reyndar með námsmennina í dag, rétt áður en ég fór úr sal, að þeir eru auðvitað hluti af því fólki sem þetta kemur við að öllu leyti. Ég skil hvað verið er að fara, að það sé svo erfitt að greina þennan hóp, en ef þeir vita hver hann er þá er væntanlega hægt að setja sviðsmynd upp, taka hann til hliðar ef menn vilja gera það og horfa á hann sem slíkan.

Varðandi sykurskattinn þá hefur okkur í Vinstri grænum og vinstri mönnum verið brigslað um að vilja stýra neyslu fólks. Þetta er auðvitað samhliða sykurskattinum sem settur var á á síðasta kjörtímabili. Ég held að það hafi ekki leitt neitt slæmt af sér. Ég held, eins og ég sagði í ræðu minni, að við eigum frekar að beina sjónum okkar að því að lækka gjöld á vörum eins og súkrín og stevíu og einhverju slíku sem gæti komið í staðinn fyrir þetta. Auðvitað er það okkar hlutverk hvort sem það er með lögum á þingi eða einhverju öðru að setja lýðheilsumarkmið og gera það sem við getum gert til að framfylgja þeim og fá þjóðina í lið með okkur. Þetta eru ekki boð og bönn. Það er ekki verið að banna fólki eða gera því illa kleift að kaupa þessar vörur. Ég veit svo sem ekki hversu mikið sykurneysla hefur minnkað frá því að sykuskatturinn var settur á en ég held að þessar aðgerðir séu ekki skynsamlegar í ljósi lýðheilsumarkmiða, offituvandamála, sykursýki o.s.frv. Ef við getum gert eitthvað til að spyrna við fótum hvað þetta varðar þá eigum við að gera það og það getum við gert eins og ég sagði.