144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka aftur það sem ég sagði um neysluvenjurnar. Ég tel að þetta sé hluti af hlutverki okkar. Við erum hér upplýsandi og leiðbeinandi. Við getum gert það með ýmsu móti. Það þýðir ekki að við séum að skipa fólki fyrir þó að sykurskatturinn sé hækkaður. Það er enginn að tala um að hækka skattinn svo óskaplega að það geti enginn keypt vöruna. Þetta snýst ekki alveg um það, það eru öfgarnar í hina áttina.

Varðandi verslanir og lækkanir þá er það gjarnan þannig og við þekkjum það alveg að verslanir hafa hækkað vöruverð og auglýst lækkun en svo er nánast engin breyting á verðinu. Það er líka þekkt. Þessar lækkanir eru auðvitað gerðar í þeirri von að lækkun efra virðisaukaskattsþrepsins komi til með að ganga eftir. Kannski þarf hún ekkert að koma til, kannski er þetta alveg mögulegt í stöðunni eins og hún er. Ef hægt er að gera þetta áður en frumvarpið er komið í framkvæmd, af hverju er þá ekki hægt að halda því áfram? Hvað mælir gegn því?

Ég ítreka enn og aftur að mér hefði fundist áhugavert að vita með tímasetninguna: Er þetta heppilegur tími í ljósi þess að útsölur og ýmislegt annað fer í gang nú um áramótin?