144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu Amnesty International er bent á gróf mannréttindabrot sem framin eru gagnvart stúlkum og konum í El Salvador, en þar í landi er fortakslaust bann við fóstureyðingum. Það þýðir að konur og stúlkur eru saknæmar í öllum tilvikum fari þær í slíkar aðgerðir. Gildir þá einu þótt lífi eða heilsu þeirra sé ógnað, hvort þungunin sé afleiðing nauðgunar eða sifjaspells eða fóstrið ekki lífvænlegt. Jafnvel eru dæmi um að konur sem verða fyrir fósturmissi séu ákærðar fyrir morð, handteknar og fangelsaðar leiki grunur á að þær hafi farið í fóstureyðingu.

Bannið undanskilur ekki einu sinni barnungar stúlkur sem verða þungaðar í kjölfar nauðgunar. Lögin neyða allar konur og stúlkur óháð aldri til að ganga fulla meðgöngu. Dæmi er um að tíu ára gömul stúlka sem varð þunguð eftir að henni var nauðgað hafi verið látin ganga fulla meðgöngu.

Samkvæmt skýrslu Amnesty International voru 129 konur handteknar í El Salvador frá janúar 2000 til apríl 2011 í kjölfar fósturmissis eða ólöglegra fóstureyðinga, flestar á aldrinum 18–25 ára. Þær geta átt yfir höfði sér tveggja til átta ára fangelsisdóm og heilbrigðisstarfsfólk sem fundið er sekt um að aðstoða við fóstureyðingar eða framkvæma þær getur hlotið allt að 12 ára dóm. Að sögn Amnesty International jafngilda lögin stofnanabundnu ofbeldi, pyntingum og annarri illri meðferð gagnvart konum og stúlkum.

Þann 27. október sl. lögðu níu ríki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hart að El Salvador að breyta úreltri og þrúgandi löggjöf um blátt bann við fóstureyðingum í landinu. Ísland var þar á meðal og var ég mjög ánægð að sjá það og stolt af okkar fulltrúum sem létu sig þetta mál varða.

Ástæðan fyrir að ég vil benda á þetta hér í dag er sú að bréfamaraþon Amnesty International fer fram þessa dagana úti um allt land, verður til dæmis á Akureyri næsta laugardag. Hægt er að sjá dagskrána á heimasíðu samtakanna. Verkefnið snýst um að senda ákall, mótmæli, ítreka afstöðu okkar til stjórnvalda í löndum þar sem mannréttindi eru brotin og einnig að senda þolendum baráttukveðjur. Ég vona að það verði góð þátttaka því að við getum raunverulega haft áhrif til góðs. Það eru mörg dæmi um að stjórnvöld láti undan þrýstingi sem myndast þegar þúsundir, hundruð þúsunda, jafnvel milljónir manna, taka sig saman og mótmæla á friðsamlegan en áhrifaríkan hátt.