144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Velferðarnefnd þingsins fór í heimsókn í morgun til umboðsmanns skuldara og hitti þar fyrir hæft og gott starfsfólk stofnunarinnar. Fjölmargir einstaklingar og fjölskyldur hafa fengið úrlausn sinna mála hjá þessari stofnun og ég hef kynnst því sjálfur að sjá fjölskyldur eignast nýja von og tilgang í lífinu eftir að hafa fengið meðferð og ráðleggingar frá þessari góðu stofnun.

Hlutirnir ganga þó ekki alls staðar þannig fyrir sig og ég hef velt fyrir mér þeirri miklu hörku sem innheimtustofnanir og bankar beita. Ég kynntist því í síðustu viku að fólk af erlendu bergi brotið sem á erfitt með að skilja málið var búið að missa húsið sitt á uppboð fyrir 50 þús. kr. Krafan var komin upp í 300 þús. kr. og það átti að hirða af fólkinu húsið fyrir 300 þús. kr. Bæjarstjórinn í viðkomandi sveitarfélagi hafði samband við mig og við reyndum að útvega fólkinu 92 þús. kr. sem innheimtufyrirtækið heimtaði að yrðu greiddar en bankinn vildi ekki lána 92 þús. kr. þó að þingmaðurinn og bæjarstjórinn væru báðir tilbúnir að ábyrgjast þetta litla lán. Þarna átti tryggingafélag að eignast hús fyrir 50 þús. kr. skuld.

Ég velti fyrir mér hvort það sé virkilega gengið svo nærri fólki í þessu samfélagi í dag, fólki sem hefur misskilið hlutina. Það voru engin önnur vanskil hjá þessu fólki. Ætla stofnanir eða fyrirtæki eins og tryggingafélög sem voru sópuð að innan af misvönduðu fólki að ganga svoleiðis að samborgurum okkar sem vilja þó standa í skilum?