144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í dag eru samkvæmt starfsáætlun þingsins sex þingfundadagar eftir þangað til þingið fer í jólahlé. Það yrðu nokkuð söguleg tíðindi ef okkur tækist að láta þá starfsáætlun standa. Ég tel að þinginu öllu væri mikill sómi að því ef það tækist og ég held þess vegna að það sé nokkuð á sig leggjandi til að reyna að ná þessu markmiði.

Það er ekkert í stöðunni núna sem segir að það ætti ekki að takast. En þá ríður auðvitað á að menn vandi sig í þeim störfum sem fram undan eru. Ábyrgð meiri hlutans er mikil í þeim efnum alveg eins og reyndar stjórnarandstöðunnar en þar geta menn að minnsta kosti reynt að vanda sig með það að koma ekki með ný mál inn í þingið á þessum lokaspretti, eins og oft vill verða, og jafnframt vanda sig við að stíga varlega til jarðar í málum sem allir vita fyrir fram að eru pólitísk álitamál og deilumál og líkleg til þess að valda miklum deilum og löngum fundum á þinginu.

Þá hvet ég jafnframt meiri hlutann á þinginu til að skoða af mikilli athygli þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við fjárlög vegna þess að í þeim er að finna hugmyndir sem ég tel að flestir í þessum sal ættu að geta verið sammála um. Ég held að það væri til mikils vinnandi ef menn vönduðu sig á þeim fáu dögum sem eftir eru og reyndu að ná sem mestri samstöðu. Það væru, eins og ég sagði áðan, nokkuð söguleg tíðindi og jákvæð merki fyrir þjóðina að sjá þinginu takast að ljúka störfum sínum í sæmilegri sátt þó að menn séu auðvitað ekki sammála um áherslur eins og gerist og gengur í pólitík.