144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Svíþjóðar riðar til falls út af sínum fyrstu fjárlögum en við erum svo heppin að vera hér að hnýta síðustu endana í fjárlögum ársins 2015. Það eru fjárlög sem lyfta geði landsmanna í þessum dimmasta mánuði ársins og auka ráðstöfunartekjur. Aldrei hefur gefist lengri tími til þinglegrar meðferðar á fjárlögum. Það að tekjuhlið fjárlaga komi fram í byrjun september er algjör nýjung. Tekjuhlið fjárlaga hefur í gegnum tíðina oft komið fram akkúrat um þessar mundir, um mánaðamótin nóvember/desember. Nefndir þingsins hafa því haft frumvörpin í þrjá mánuði til skoðunar, fengið fjölbreytta flóru gesta til sín til skrafs og ráðagerða. Opið og gegnsætt ferli hefur einkennt alla þessa fjárlagameðferð. Þetta er nýtt. Seint verður unnt að uppfylla hinar margvíslegu og fjölbreyttu óskir en staðið var þó við stóra fyrirheitið um að koma skuldugum heimilum til hjálpar.

Þingmenn töluðu fyrir örfáum árum um að það væri ósvinna að koma ekki til móts við hin venjulegu íslensku heimili sem tóku á sig kollsteypu þegar fasteignalán þeirra tóku stökkbreytingum þó að sömu menn vilji nú ekki kannast við það. Það var eðlileg og sanngjörn krafa að leiðrétta stökkbreyttu lánin hjá Jóni og Gunnu. Muna menn ekki, eru menn búnir að gleyma því, að á síðasta kjörtímabili voru 500 milljarðar afskrifaðir, 500 milljarðar felldir niður hjá fyrirtækjum og einstaklingum? Sem betur fer urðu ekki öll heimili fyrir stökkbreytingu húsnæðislána. Sum heimili voru á leigumarkaði og önnur heimili sátu í skuldlausri eign. Við höfum sagt að við mundum koma til móts við leigjendur með öðrum hætti og í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpinu hækkum við húsnæðisbætur og barnabætur og aukum við niðurgreiðslu lyfja. (Forseti hringir.) Aðalkjarabótin er samt og verður að hér er engin verðbólga.