144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að Ríkisútvarpið búi við fjandskap Sjálfstæðisflokksins því að sá flokkur hefur lengi amast við tilveru Ríkisútvarpsins og gert því jafnvel skóna að það megi leggja niður. Ungliðahreyfing flokksins hefur í gegnum árin ályktað með þeim hætti og það er ágætt í því samhengi að minnast þess sem Björn Bjarnason sagði um Ríkisútvarpið í fyrra. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra máttu framsóknarmenn ekki heyra orðinu hallað um Ríkisútvarpið og stóðu gegn öllum róttækum breytingum á því. Nú nær óánægja með stofnunina langt inn í þingflokk framsóknarmanna og sumir ná vart andanum vegna reiðilegra ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um útvarpið. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er í forustu fyrir fésbókarsíðu til eftirlits með Ríkisútvarpinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifaði harða ádeilugrein á Ríkisútvarpið í Morgunblaðið.

Þetta sagði Björn Bjarnason og fagnaði greinilega nokkuð þeim liðsauka sem honum hafði borist eða Sjálfstæðisflokknum í því. Hér er um mikilvæga pólitíska þróun að ræða sem Björn Bjarnason nefnir og bendir á.

En nú ber svo við að Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, snýr við blaðinu og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir að hafa hugleitt málið betur tel ég rétt að stíga varlega til jarðar.“

Þetta gerðist eftir að stjórn Ríkisútvarpsins sendi frá sér harðorða ályktun, og skal tekið fram að það er stjórn Ríkisútvarpsins eins og hún leggur sig, og sagði að það væri kominn upp það mikill vandi að það þyrfti að kúvenda grundvelli Ríkisútvarpsins ef tillaga meiri hluta fjárlaganefndar stæði. Að vísu auglýsir hv. þm. Karl Garðarsson eftir stefnu Ríkisútvarpsins sem má finna bæði á heimasíðu útvarpsins og ekki síður í lögum um Ríkisútvarpið.

Ég vonast fyrst og fremst til þess að fleiri í stjórnarflokkunum standi með Ríkisútvarpinu eins og hv. þm. Karl Garðarsson, að raunveruleg breyting verði á (Forseti hringir.) afstöðu ríkisstjórnarflokkanna og (Forseti hringir.) þess sjái stað í breytingum á fjárlagafrumvarpinu milli 2. og 3. umr. Í allsherjar- og menntamálanefnd verður á morgun að minni (Forseti hringir.) beiðni kallað eftir fundi með stjórn (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins þar sem væntanlega stjórnin, og þar með fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, getur gert grein fyrir þeirri alvarlegu (Forseti hringir.) stöðu sem upp er komin.