144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða málefni sparisjóðanna og mikilvægi þeirra á markaði til framtíðar. Heilbrigð samkeppni er nauðsynleg fyrir velferð neytenda og hagkvæmni atvinnulífsins. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað á fjármálamarkaði. Þessi þróun birtist meðal annars í meiri vaxtamun en ella sem leggst á heimilin og atvinnulífið. Við efnahagsstjórn er nauðsynlegt að efla samkeppni og þá ekki síst á fjármálamarkaði. Ein leið til þess er að endurreisa sparisjóðina sem veittu viðskiptabönkum í senn samkeppni og aðhald í hefðbundinni viðskiptabankaþjónustu. Fyrir hrun höfðu sparisjóðirnir um 25% hlutdeild, en þeir hafa margir hverjir verið leystir upp eða yfirteknir af viðskiptabönkunum þremur. Nú er hlutdeild þeirra um 2% af heildareignum bankakerfisins.

Afl sparisjóður er stærsti sparisjóðurinn í dag með starfsstöðvar á Siglufirði og Sauðárkróki. Afl stendur fyrir um 27% af heildareignum sparisjóðanna. Arion banki er síðan stærsti einstaki stofnfjáraðili Afls sparisjóðs. Ríkissjóður heldur á 13% hlut í Arion banka en Bankasýsla ríkisins fer svo með eignarhluti ríkisins. Það er þó Samkeppniseftirlitið sem hefur í raun staðið fyrir því að Afl sparisjóður hafi runnið endanlega inn í Arion banka.

Nú hefur athygli hv. efnahags- og viðskiptanefndar verið vakin á því að í uppsiglingu sé atburðarás sem þurfi að skoða og hafa áhyggjur af því að Arion yfirtaki endanlega Afl sparisjóð. Nefndin telur mikilvægt að kalla á sinn fund Fjármálaeftirlitið, Bankasýsluna og landssamtök sparisjóða til að fá upplýsingar um stöðuna.

Virðulegi forseti. Mikið er í húfi; eignarhluti ríkisins, samkeppnisaðstæður, vernd minnihlutaaðila á markaði og sjálfseignarfé í samfélagslegri eigu — (Forseti hringir.) og mögulega framtíð sparisjóðanna.