144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki slapp hv. þingmaður Oddný Harðardóttir í gegnum þetta andsvar án þess að segja samfylkingarsetninguna „hér varð hrun“, sem hefur verið notað sem skjól fyrir döprum tíma alls síðasta kjörtímabils, því miður. Ég get sagt það hér, af því að þingmaðurinn minntist á þetta, að fyrri ríkisstjórn hafði óteljandi tækifæri til að láta gott af sér leiða en þá var forgangsraðað í gæluverkefni, eins og ESB umsókn, misheppnað stjórnlagaþing sem var dæmt ólöglegt af Hæstarétti, stofnaðar voru nýjar hrunstofnanir og svo framvegis. Það var ekki hugað að grunnþáttum samfélagsins sem voru skornir niður. Ég fór yfir það áðan. Það voru menntamálin og það voru heilbrigðismálin. Þetta er bara staðan, virðulegi forseti.

Svo er gjarnan gripið í það að fyrri ríkisstjórn hafi verið farin að gefa til baka í fjárlögum 2013. Því má enginn gleyma að fjárlög fyrir árið 2013 voru ekkert annað en kosningaloforðafjárlög sem sýndi sig að þegar ný ríkisstjórn tók við eftir að fyrri ríkisstjórn var kosin í burtu í alþingiskosningum — og það vakti athygli á heimsvísu hversu mikið kosningatapið var, einhver talaði um að það hefði verið mesta kosningatap í öllum ríkjum Evrópusambandsins svo langt aftur sem elstu menn mundu — þá fór ný ríkisstjórn í að skera niður kosningaloforðin í fjárlögum 2013 til þess að byrja á einhverjum stað og ná viðspyrnu sem ríkisstjórnin hefur núna náð. Þetta var ekkert auðvelt og við urðum ekkert vinsæl, en þetta voru verkin sem við byrjuðum á að fara í, að skera niður gæluverkefni og óþarfa fyrri ríkisstjórnar.

Aukinn lyfjakostnað og (Forseti hringir.) heilbrigðismál (Forseti hringir.) verð ég að koma inn á í seinna andsvari.