144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer þingmaðurinn mikinn um greiðsluþátttöku og sjúklinga. Ég vil minna á það í upphafi að samkvæmt breytingartillögum sem birtast hér frá meiri hluta fjárlaganefndar leggjum við stóraukið fjármagn til Sjúkratrygginga Íslands sem fer með samningsumboð gagnvart læknum og einnig ákvarðanir um t.d. hin svokölluðu S-merktu lyf, sem eru afar dýr lyf og oft notuð í miklum undantekningartilfellum þegar viðkomandi einstaklingar eru mjög veikir. Það er verið að auka við þá stofnun til að hún sé betur hæf og hafi meira bolmagn til að ná góðum samningum. Það er byrjunin.

Ég ætla að benda á það að sérgreinalæknar eru enn þá samningslausir. Það var svo á síðasta kjörtímabili að ríkisstjórnin hafði á einhvern hátt ekki afl til þess að semja við nokkra einustu starfsstétt. Svo var farið af stað með tillögu í fjárlögum í fyrra um að fara með greiðsluþátttöku sjúklinga úr 42% niður í 37%, þá fór samfélagið á hvolf og mönnum fannst það mjög ósanngjarnt. Á meðan það er samningsleysi eru einstaklingar í samfélaginu, sem þurfa að leita sér lækninga og þurfa að kaupa lyf, að borga hærra fyrir vikið.

Að lokum langar mig til þess að rifja upp þetta. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur farið fyrir vinnu nefndar þar sem afar gott starf hefur verið unnið. Þar hafa komið saman aðilar frá mörgum hópum í samfélaginu og komist að niðurstöðu og hv. þm. Pétur Blöndal er mjög ánægður með að nú er farið að sjá í land. Meginstefið í þeirri nefnd, virðulegi forseti, er að lágmarka eins og kostur er (Forseti hringir.) kostnaðarþátttöku þeirra sem eru langveikir og hafa verið veikir(Forseti hringir.) um langa hríð. Þannig að þetta er upptakturinn (Forseti hringir.) í vinnunni, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og við erum svo sannarlega að vinna að þessum málum.