144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir ræðu hennar. Mig langar að spyrja aðeins út í breytingartillögur meiri hlutans. Það kom mér á óvart hvað það voru margar breytingartillögur sem sneru að félagasamtökum og öðru sem var sátt um að færa inn í ráðuneytin, m.a. til þess að gæta jafnræðis. Ég geri ekki lítið úr því að það eru mörg góð verkefni þarna sem ég styð heils hugar, en ég set líka spurningarmerki við önnur. Sumar þessar breytingartillögur eru ekki útskýrðar nema bara að mjög litlu leyti í nefndarálitinu. Ég hef efasemdir um þetta vinnulag og velti fyrir mér hvort við séum að fara aftur í gamla farið.

Mig langar að spyrja hv. formann hvaða skoðun hún hafi á þessu, hvort við séum núna í raun hætt við það sem var pólitísk samstaða um að breyta og hvort þetta verði svona áfram við næstu fjárlagagerð, að meiri hlutinn ráðstafi fé á þennan hátt.