144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir það í framsöguræðu minni að það þyrfti að skýra betur hlutverk fjárlaganefndar vegna þess að þegar búið er að leggja frumvarpið fram í þinginu, þskj. 1 á hverju hausti, hefur fjárlaganefnd það hlutverk að taka á móti gestum sem koma fyrir nefndina, fulltrúum sveitarfélaga og annarra stofnana sem ég fór yfir. Það er rétt að 2012 var lögunum breytt þannig að það svigrúm sem fjárlaganefnd hafði til að ákvarða fjárveitingar til einstakra aðila var allt fært inn í ráðuneytin í potta sem hvert ráðuneyti hefur fyrir sig. Það hefur tekið smátíma að snúa málum í þá átt að þriðji geirinn sem dæmi og margt sem snýr að ungmennum, að beiðnir úr þeirri átt fari sem verkefnaumsóknir til ráðuneytanna. Það hefur verið nokkuð erfitt að útskýra þetta.

Ég tel að fjárlaganefnd verði að hafa svigrúm, eitthvert svigrúm á milli ára, til þess að geta á einhvern hátt (Forseti hringir.) miðlað einhverju fé til mikilvægra verkefna og erinda sem berast fjárlaganefnd á haustin.