144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu og stöðu mála þar. Við Píratar létum gera skoðanakönnun þar sem kom fram að meira en 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í 1. eða 2. sæti málaflokka á fjárlögum. Forstöðumenn heilbrigðiskerfisins og stofnana þess komu fyrir fjárlaganefnd og töldu upp hvað þyrfti að setja mikið fé í heilbrigðiskerfið, umfram tillögur ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram, til að hægt sé að veita þá lágmarksþjónustu sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana meta að sé nauðsynleg.

Ég vil spyrja hæstv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur: Að hve miklu leyti hefur fjárlaganefnd komið til móts við það mat á fjárþörf frá forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins? Til hálfs, 75%, eða kannski bara alla leið?