144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var bætt í á milli fjárlaga vegna þess að menn sáu að það var ekki nóg sem lagt var af stað með. Nú er spurningin: Er það sem bætt var við nóg? Þetta skiptir ofboðslega miklu máli.

Ég talaði við landlækni fyrr í dag, átti fund með honum, vegna þess að ég hafði áhyggjur af þessu. Ég spurði hann um það hvað gerist þegar læknum fækkar sífellt, vinnubyrði þeirra lendir á öðrum, vaktaálagið eykst. Við getum lent í neikvæðum spíral, læknar hverfa frá og vinnuálagið lendir á öðrum og þeir fara að hætta líka. Þetta er mjög hættuleg staða. Nú eru læknar í verkfalli. Landlæknir sagði að hann hefði áhyggjur af því að ef það yrði önnur verkfallslota eftir áramót hjá læknum og heilbrigðisstarfsmönnum, þá gætum við verið komin í þennan neikvæða spíral.

Forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins komu fyrir nefndina og þeir lögðu upp með faglegt mat á því hvað raunverulega þarf til þess að tryggja þá nauðsynlegu þjónustu sem landsmenn (Forseti hringir.) setja í algjöran forgang. Þannig að það væri æðislegt ef hv. formaður fjárlaganefndar gæti sagt okkur að hve miklu leyti nefndin kemur í (Forseti hringir.) breytingartillögum sínum til móts við lágmarksmat (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfisins.