144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þetta andsvar. Til þess að segja það fyrst þá skilar heilbrigðisráðherra tillögum til fjármálaráðuneytisins um mitt sumar varðandi fjárþörf og í þessu tilfelli fjárþörf heilbrigðiskerfisins alls. Svo vindur árinu fram, það er komið að haustdögum og það er komið fram í nóvember og þörfin orðin mjög knýjandi og flestar ríkisstofnanir farnar að kalla á enn meira fjármagn.

Ég hef sagt alltaf: Hvenær á fjárveitingavaldið að vita hvenær nóg er nóg? Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir. Ég sem formaður fjárlaganefndar ber raunverulega ábyrgð á allri gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins lárétt. Þótt það sé kannski meiri krafa um aukningu í heilbrigðisgeiranum verðum við líka að sinna hinum hlutum samfélagsins. Auðvitað erum við mjög áhyggjufull út af læknaverkfallinu, en sem betur fer er til á fjárlögum liður sem heitir ófyrirséð útgjöld, t.d. vegna hækkana í kjarasamningum. (Forseti hringir.) Þannig að það er eitthvað upp í það ef semst við lækna. Það þarf ekki að koma fyrr en sem heimild í fjáraukalögum 2015 ef það verður tekið (Forseti hringir.) af þeim lið. Þannig að við reynum okkar besta og þetta er útkoman.